Stefna

Starfsreglur áhættunefndar

pdf icon

Tilgangur

Tilgangur áhættunefndar („nefndin“) er fyrst og fremst að staðreyna virkni áhættustýringar innan fyrirtækisins. Fundir nefndarinnar eru umræðuvettvangur fyrir mál er tengjast áhættum sem félagið stendur frammi fyrir og þróun þeirra.

Skipan

Áhættunefndin er undirnefnd stjórnar félagsins. Í henni sitja forstjóri, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og forstöðumaður öryggis- og gæðamála. Nefndarmenn skulu árlega kjósa formann áhættunefndar.

Fundir

Nefndin skal að lágmarki halda ársfjórðungslega fundi. Formaður nefndarinnar stýrir fundum hennar og tilnefnir fundarritara.Ákvarðanataka miðast við einfaldan meirihluta nefndarmanna.Fundargerð skal lögð fram til samþykktar á næsta fundi nefndarinnar. Fundargerðir skulu vistaðar á svæði sem stjórn hefur aðgang að.

Hlutverk

Nefndin starfar í samræmi við áhættustefnu sem er sett af stjórn félagsins. Stjórnin fer árlega yfir áhættustefnuna og ber áhættunefnd að haga vinnu sinni og starfsreglum í samræmi við gildandi stefnu hverju sinni.

Hlutverk nefndarinnar er meðal annarra eftirfarandi;

 • Að bera ábyrgð á og svara fyrir gagnsemi og virkni áhættustýringar
 • Að sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn fyrirtækisins, m.a. vegna áhættustefnu og áhættuvilja •Að fylgjast með og meta með reglulegu millibili árangur áhættustjórnunarinnar og gera þær breytingar á markmiðasetningu og framkvæmd sem nauðsynlegar kunna að vera
 • Að fara yfir mikilvægustu stefnur og gæðaskjöl fyrirtækisins tengt áhættustýringu
 • Að leggja til breytingar á skipulagi áhættustýringar til stjórnar gerist þess þörf
 • Að rýna helstu áhættuþætti og áhættuprófíl fyrirtækisins
 • Að rýna áhættuskýrslur áður en þær verða lagðar fyrir stjórn
 • Að rýna viðbragðsáætlanir

Nefndarmenn kjósa nefndinni formann. Formaður áhættunefndar ber megin ábyrgð á starfsemi nefndarinnar og skal stuðla að virkri þátttöku allra nefndarmanna. Að auki skal formaður m.a.:

 • Styðja framkvæmdastjóra sviða og forstjóra félagsins við framkvæmd áhættugreiningar, samræmir verklag og heldur utan um miðlæga áhættuskrá
 • Boða fundi áhættunefndar og efni þeirra
 • Bera ábyrgð á samskiptum nefndarinnar við endurskoðunarnefnd og stjórn.
 • Bera árbyrgð á að veita stjórn og endurskoðunarnefnd félagsins upplýsingar um störf áhættunefndar að lágmarki árlega og dregur sérstaklega fram þá annmarka sem fram hafa komið við áhættustýringu og hvað gert hefur verið til að bæta úr þeim.

Til að nefndin geti sinnt hlutverki sínu þá getur hún haldið fundi með lykilstjórnendum, endurskoðendum og þeim starfsmönnum sem hún telur nauðsynlegt að hitta, til að fjalla um þau málefni sem hún telur mikilvæg.

Stjórn Skeljungs getur sent nefndinni hvert það mál til nánari skoðunar eða eftirfylgni er varðar áhættustýringu. Nefndin getur einnig átt frumkvæði að nánari skoðun eða eftirfylgni með hverjum þeim málum sem hún telur nauðsynlegt.

Nefndin gefur stjórn Skeljungs skýrslu um störf sín að lágmarki árlega og dregur sérstaklega fram þá annmarka sem fram hafa komið við áhættustýringu og innra eftirliti og hvað gert hefur verið til að bæta úr þeim.

Nefndin endurmetur árlega hvort reglur hennar séu fullnægjandi. Telji nefndin að breyta þurfi starfsreglum skal hún senda stjórn beiðni um breytingu.

Þagnar- og trúnaðarskylda

Á nefndarmönnum hvílir þagnar- og trúnaðarskylda um málefni fyrirtækisins, hagi viðskiptavina þess og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt samþykktum félagsins, lögum eða eðli máls, nema um sé að ræða málefni sem stjórnin ákveður að gera opinber. Þagnar- og trúnaðarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Öll gögn skulu varðveitt með tryggilegum hætti á sérstöku rafrænu svæði hjá félaginu sem nefndinni er úthlutað.

Samþykkt á fundi áhættunefndar Skeljungs hf. þann 24.01.2017

______________________________________                        _________________________________
Valgeir Baldursson, forstjóri                                                          Benedikt Ólafsson, frkv.stj. fjármálasviðs

_______________________________________                    _________________________________
Már Erlingsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs                         Sigurður Orri Jónsson, frkv.stj. fyrirtækjasviðs

_______________________________________
Ólafur H Jónsson, öryggis- og gæðastjóri

Leaf file-2 file-1 calendar-white ismartphone-3-white calendar-5 ismartphone-3