Stefna

Viðskipta og siðareglur Skeljungs

pdf icon

Við hjá Skeljungi erum meðvituð um þær kröfur sem samfélagið og viðskiptavinir okkar gera til okkar. Ákvarðanir sem teknar eru í dag geta haft áhrif á störf okkar og umhverfi um langan tíma. Þess vegna skiptir miklu máli að við gerum okkur öll grein fyrir hvert ferðinni er heitið og hvernig við hyggjumst ná þangað. Reglur þessar eru leiðarvísir okkar á þeirri braut. Við leggjum ríka áherslu á þau grundvallargildi sem þær endurspegla enda eru þau sú undirstaða sem störf okkar hvíla á. Þ.e. heiðarleiki, sanngirni og virðing. Reglurnar veita aðhald og auðvelda okkur að meta þau fjölbreyttu viðfangsefni sem mæta okkur í okkar daglegum störfum um leið og þær hjálpa okkur að taka réttar ákvarðanir.Haghafar

Skeljungur hf. lítur svo á að fyrirtækið beri ábyrgð gagnvart eftirfarandi hópum:

 1. Samfélagið 

  Samfélagið nýtur góðs af starfsemi fyrirtækisins. Með arðsömum rekstri og hagkvæmni á öllum sviðum styrkjum við til frambúðar öfluga þátttöku Skeljungs í íslensku athafnalífi. Við virðum lög og reglur og högum störfum okkar þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Við stuðlum að sjálfbærri þróun og stöndum vörð um viðkvæma náttúru landsins.

 2. Hluthafar 

  Við leitumst við að gæta hagsmuna hluthafa í hvívetna og að skila viðunandi arði.

 3. Viðskiptavinir

  Við einsetjum okkur að veita viðskiptavinum fyrirtækisins úrvals þjónustu og tryggja að vörur og þjónusta þess séu ætíð í fararbroddi hvað varðar gæði, vöruþróun og tækni. Viðskiptavinir fyrirtækisins eiga aldrei að efast um að Skeljungur er þjónustufyrirtæki í fremstu röð.

 4. Starfsmenn

  Góður liðs- og starfsandi er okkar sterkasta vopn í stöðugt harðnandi samkeppni. Við berum fyrir brjósti hag starfsmanna fyrirtækisins og viljum vera áfram í fremstu röð hvað varðar réttindi þeirra, öryggi og starfsumhverfi. Jafnrétti, þar sem hæfni ræður vali er órofa hluti af menningu fyrirtækisins.

 5. Samstarfsaðilar 

Loforð okkar til Haghafa

Fyrirtæki eru, þegar allt kemur til alls, fólk. Við, stjórn og starfsfólk Skeljungs, gefum haghöfum okkar eftirfarandi loforð:

 1. Samfélagið nær og fjær

  Markmið okkar er að valda hvorki mönnum né náttúrunni skaða. Við munum koma fram við aðra af sanngirni og virðingu. Mismunun og áreitni verða ekki liðin.

 2. Hollustuhættir, öryggi og umhverfi

  Við vinnum á kerfisbundinn hátt að málum sem snerta hollustuhætti, öryggi og umhverfisvernd. Við stefnum að stöðugt bættum árangri á þessu sviði. Við setjum okkur markmið um endurbætur og greinum frá árangri okkar. Við leggjum ríka áherslu á að allar lagalegar skyldur hvað þessi mál varðar séu uppfylltar. Við höfum sett okkur öryggis- og umhverfisstefnu sem skal vera aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins.

  Hlutverk starfsmanna: Að hver og einn þekki þær öryggisreglur og verkferli er gilda um starf viðkomandi og að starfsmenn upplýsi um óhöpp og tilvik þar sem óhapp hefði getað átt sér stað. Að vinna úr tilkynningum og útbúa, uppfæra eða ítreka verkferli við viðeigandi starfsmenn.

 3. Samfélagsleg ábyrgð

  Eitt mikilvægasta framlag fyrirtækja til samfélagsins felst í að reka grundvallarstarfsemi sína með eins skilvirkum hætti og frekast er unnt. Þetta á sérstaklega við um fyrirtæki er selja nauðsynjavörur. Skilvirkni í rekstri er ótvírætt keppikefli okkar. Þá heitum við því að taka mið af hagsmunum samfélagsins og af umhverfisverndarsjónarmiðum við ákvarðanatöku okkar. Jafnframt leggjum við margvíslegum samfélagslegum verkefnum lið, þótt þau snerti ekki starfsemi fyrirtækisins með beinum hætti. Við höfum sett okkur stefnu um samfélagsábyrgð sem skal vera aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins.

  Hlutverk starfsmanna: Að vera ávallt vakandi fyrir leiðum til að auka skilvirkni í rekstrinum og bera hugmyndir sínar þess efnis upp við yfirmann sinn. Að hafa í huga hagsmuni samfélagsins og umhverfisins við alla ákvörðunartöku.

 4. Sjálfbær þróun

  Sjálfbær þróun merkir fyrir okkur það að mæta vaxandi orkuþörf með efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega ábyrgum leiðum. Við vegum og metum skammtíma- og langtímahagsmuni og höfum í huga hagkvæmni, hollustuhætti, öryggi, umhverfisvernd og samfélagsleg áhrif við töku viðskiptaákvarðana.

  Sjálfbær þróun snýr samkvæmt okkar skilningi jafnframt að fyrirtækinu sjálfu. Við sýnum ábyrgð í rekstri okkar og lítum til krafna haghafa okkar um að skapa ný arðbær tækifæri, meðal annars með tilliti til endurnýjanlegra orkugjafa.

  Hlutverk starfsmanna: Að skapa varanlegan samfélagslegan ávinning í rekstrinum og að minnka áhrif á vistkerfið með vöruþróun, sem og með því að nota alla orku í starfseminni á sem skilvirkastan hátt.

 5. Jöfn tækifæri

  Við munum tryggja að starfstengdar ákvarðanir munu byggja á viðeigandi hæfni, verðleikum, frammistöðu og öðrum starfstengdum þáttum. Við munum ekki sætta okkur við mismunun. Við höfum jafnframt útbúið jafnréttisáætlun sem skal vera aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins.

  Hlutverk starfsmanna: Að bera virðingu fyrir hverjum og einum, sem og ólíkum sjónarmiðum, að koma fram af sanngirni og að mismuna engum. Að skilja það að verðmæti er fólgið í fjölbreytileikanum.

 6. Áreitni

  Við munum ekki líða áreitni. Við munum ekki þola neins konar hegðun sem er niðurlægjandi, ógnandi eða fjandsamleg. Séum við óviss um hvort eitthvað sé óviðeigandi skulum við gera ráð fyrir að svo sé. Við höfum útbúið viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni og kynbundins ofbeldis, sem skal vera aðgengileg öllum starfsmönnum.

  Hlutverk starfsmanna: Að koma fram við aðra af virðingu og að forðast kringumstæður sem kunna að vera taldar óviðeigandi. Að koma öðrum til varnar ef við verðum vitni að hegðun sem er fjandsamleg, ógnandi eða niðurlægjandi.

Heiðarleiki í viðskiptum

Við leggjum áherslu á heiðarleika og sanngirni í viðskiptum og gerum ráð fyrir því sama af þeim sem fyrirtækið skiptir við. Við förum ávallt að lögum og reglum og almennum viðmiðum um siðferði í viðskiptum og fylgjum þeim reglum sem fyrirtækið setur á hverjum tíma. Við tökum hvorki við né greiðum neitt það sem flokkast getur undir mútur. Við eigum ekki viðskipti við aðila sem grunur leikur á að stundi peningaþvætti. Öll viðskipti Skeljungs hf. skulu tilgreind í reikningum fyrirtækisins í samræmi við viðurkenndar starfsreglur og háð endurskoðun. Við forðumst hagsmunaárekstra á milli eigin fjármála og viðskipta fyrirtækisins.

 1. Samkeppni

  Við styðjum frjálsa samkeppni og heitum því að stunda sanngjarna og siðlega samkeppni í samræmi við gildandi löggjöf. Við komum ekki í veg fyrir að aðrir geti stundað löglega samkeppni.

  Hlutverk starfsmanna: Að þekkja rétt og skyldur sínar samkvæmt samkeppnislögum og að fara eftir þeim í hvívetna. T.d. að eiga ekki samskipti við keppinauta um verðlagningu, framleiðslu, viðskiptavini eða markaði. Að leita ávallt lögfræðilegrar ráðgjafar hjá yfirmanni eða lögfræðingi Skeljungs varðandi nauðsynleg samskipti við keppinauta. Að bóka mótmæli í fundargerðir og yfirgefa fundi ef keppinautar Skeljungs sitja fundinn og umræðuefnið fer yfir á framangreinda þætti. Eins að svara með mótmælum ef slíkur tölvupóstur berst.

 2. Hagsmunaárekstrar

  Um hagsmunaárekstur er að ræða þegar persónuleg sambönd okkar, þátttaka í óvinnutengdri starfsemi eða hagsmunir tengdir verkefnum sem ekki eru starfstengd hafa áhrif eða geta virst hafa áhrif á starfstengdar ákvarðanir okkar. Einkahagsmunir okkar mega ekki hafa áhrif á starfstengdar ákvarðanir. 

  Hlutverk starfsmanna: Að tilkynna yfirmanni og stíga til hliðar við ákvörðunartöku ef um hagsmunaárekstur er eða virðist vera að ræða. Að nota ekki stöðu okkar innan fyrirtækisins til eigin hagsbóta.

 3. Innherjaviðskipti

  Um innherjaviðskipti er að ræða þegar við eigum viðskipti með hluti í Skeljungi þegar við búum yfir upplýsingum sem geta haft áhrif á verð hlutabréfanna og hafa ekki verið gerðar opinberar. Einnig þegar við deilum slíkum upplýsingum með öðrum sem síðan eiga viðskipti með hluti í Skeljungi. Við höfum sett okkur reglur um innherjaviðskipti og upplýsingagjöf, sem skulu vera aðgengilegar á heimasíðu Skeljungs.

  Hlutverk starfsmanna: Að standa vörð um trúnaðarupplýsingar. Að nota aldrei trúnaðarupplýsingar til eigin hagsbóta, sérstaklega ekki í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Skeljungi. Að dreifa ekki orðrómi, gefa villandi eða rangar upplýsingar eða reyna að hafa áhrif á verð hlutabréfa Skeljungs. Að þekkja lög og reglur um innherjaviðskipti og markaðssvik.

 4. Stjórnmálastarfsemi

  Við vinnum að viðskiptamarkmiðum okkar eftir ábyrgum og lögmætum leiðum. Við greiðum ekki fé til stjórnmálaflokka, stjórnmálasamtaka eða fulltrúa þeirra og höfum ekki afskipti af flokkspólitísku starfi. Við áskiljum okkur hins vegar rétt til að láta í ljósi afstöðu okkar til málefna sem hafa bein áhrif á fyrirtækið, starfsmenn þess, viðskiptavini eða hluthafa. Við leggjumst ekki gegn því að einstaka starfsmenn taki þátt í samfélagslegum verkefnum t.d. til með því að bjóða sig fram til opinberra embætta, svo lengi sem slíkt telst viðeigandi í ljósi ríkjandi aðstæðna á hverjum tíma.

  Hlutverk starfsmanna: Að greiða ekki fé til stjórnmálaflokka, stjórnmálasamtaka eða fulltrúa þeirra. Að tryggja að persónulegar pólitískar skoðanir starfsmanna verði ekki álitnar skoðanir Skeljungs.

 5. Gjafir

  Gjafir og gestrisni skulu aldrei hafa eða virðast hafa áhrif á viðskiptalegar ákvarðanir okkar og mega ekki gera okkur eða Skeljung skuldbundin neinum. Gjafir í formi reiðufjár eða jafngildi reiðufjár eru aldrei heimilar.

  Hlutverk starfsmanna: Að láta ekki gjafir eða gestrisni hafa eða virðast hafa áhrif á viðskiptalegar ákvarðanir okkar og að sama skapi að nota ekki gjafir eða gestrisni til þess að reyna að hafa áhrif á viðskiptalegar ákvarðanir annarra. Að vera meðvituð um tímasetningu gjafa og gestrisni. Að upplýsa og fá samþykki næsta yfirmanns fyrir móttöku gjafa eða gestrisni sem manni er sýnd eða fyrirhugað er að veita öðrum. Að þekkja lög og reglur um mútur og spillingu.

 6. Arðsemi í gegnum skilvirkni

  Eitt af hlutverkum fyrirtækisins er að skila eigendum sínum ávöxtun á fjárfestingu sína.

  Arðsemi er jafnframt forsenda rekstursins og þar með þeirra starfa sem hjá fyrirtækinu hafa skapast. Við heitum því að vinna ötullega að því að skapa arðsemi í gegnum skilvirkan og hagkvæman rekstur, þar sem tillit er tekið til allra haghafa.

  Hlutverk starfsmanna: Að vera stöðugt vakandi fyrir umbótatækifærum í rekstrinum og að upplýsa yfirmenn sína um slík tækifæri. 

Varðveisla upplýsinga og eigna

Verðmæti er falið í hugverkum, efnislegum og fjárhagslegum eignum Skeljungs. Þessar eignir munum við varðveita og hafa umsjón með. Við heitum því jafnframt að vernda persónulegar upplýsingar haghafa. Við vitum að þagnarskylda helst þrátt fyrir starfslok. Upplýsingatækni og boðleiðir munum við nota á ábyrgan hátt. Þá munum við gæta þess að skráðar upplýsingar gefi rétta mynd og að þær séu varðveittar á fullnægjandi hátt. Sviksemi, þjófnaður og misnotkun á eignum Skeljungs er óásættanleg.

 1. Vernd eigna

  Eignir Skeljungs geta verið fjárhagslegar, efnislegar og óáþreifanlegar, t.a.m. fasteignir, tæki, sjóðir, hugbúnaður, verkkunnátta, vörumerki, viðskiptaleyndarmál og gögn. Vanræktar eignir geta leitt til tjóns fyrir fyrirtækið og haghafa. Við heitum því að varðveita og annast eignir félagsins.

  Hlutverk starfsmanna: Að vernda eignir fyrirtækisins gegn sóun, tapi, tjóni, misnotkun, þjófnaði og sviksemi. Að virða jafnt efnislegar sem óáþreifanlegar eignir fyrirtækisins og annarra.

 2. Persónuvernd

  Við heitum því að gæta fyllsta trúnaðar varðandi persónulegar upplýsingar hluthafa, samstarfsaðila, viðskiptavina og starfsmanna. Við heitum því jafnframt að meðhöndla ekki á nokkurn hátt slíkar upplýsingar sem við höfum undir höndunum nema slík notkun sé nauðsynleg og heimiluð með lögum, t.d. með samþykki viðkomandi. Við heitum því að eyða persónulegum upplýsingum við fyrsta tækifæri eða gera þær órekjanlegar. Við virðum friðhelgi einkalífs.

  Hlutverk starfsmanna: Að virða friðhelgi einkalífs haghafa. Að fylgja lögum og reglum um persónuvernd við söfnun, notkun og miðlun upplýsinga. Að verja persónulegar upplýsingar gegn misnotkun. Að vinna innan eldveggja. Að upplýsa yfirmann ef grunur leikur á öryggisbresti.

 3. Gagnavernd

  Með gögnum er í þessu samhengi átt við upplýsingar sem staðfesta ákveðna virkni í rekstrinum, eru nauðsynleg í lagalegum, skattalegum eða bókhaldslegum skilningi eða eru mikilvæg rekstrinum eða sögu fyrirtækisins. Það er efni gagnanna sem er mikilvægt, ekki form þeirra. Gögn eru t.d., samningar, endurskoðunarskýrslur, fjárhagslegar upplýsingar, vörulýsingar, stefnur, leiðbeiningar, verkferlar og fundargerðir.

  Þau gögn sem verða til í rekstri fyrirtækisins eru verðmæt og þau munum við varðveita tryggilega. Við munum sjá til þess að trúnaðargögn séu einungis aðgengileg þeim er þurfa á þeim að halda starfs síns vegna. Við munum sjá til þess að þeir aðilar sem hafa heimild til geti nálgast gögn hratt og fumlaust.

  Hlutverk starfsmanna: Að greina á milli verðmætra gagna og annarra upplýsinga. Að vista gögn í skjalavistunarkerfi fyrirtækisins ef við á, eða öðrum tryggum stað sem verður aðgengilegur yfirmanni ef látið er af störfum. Að gæta þess að óviðkomandi hafi ekki aðgang að trúnaðargögnum. Að tilkynna yfirmanni ef grunur leikur á öryggisbresti.

 4. Einkanotkun á samskiptatækjum

  Við kunnum að fá til notkunar í tengslum við störf okkar fartölvu, farsíma og borðsíma. Okkur er heimil hófstillt einkanotkun á tækjum fyrirtækisins. Notkun okkar á ekki að leiða til tilfinnanlegs kostnaðar eða leiða til neikvæðra áhrif á starfsframlag okkar. Við munum ekki nota tækin til ólöglegra eða ósiðlegra athafna. Við munum ekki senda tölvupósta eða hringja símtöl líkt og um erindi fyrirtækisins væri að ræða þegar málið varðar einkahagsmuni. Við höfum sett okkur reglur um notkun tækja fyrirtækisins, sem skulu vera aðgengilegar öllum starfsmönnum.

  Hlutverk starfsmanna: Að sýna skynsemi í notkun tækja fyrirtækisins. Að kynna sér þær reglur sem gilda um notkun tækja fyrirtækisins.

Samskipti

Samskipti okkar eru samskipti Skeljungs. Við munum sýna kurteisi og þjónustulund og hlusta á haghafa.

Vilji okkar stendur til þess að viðhafa opna og frjálsa miðlun upplýsinga enda hefur starfsemi fyrirtækisins mikil áhrif á fjölmarga einstaklinga, fyrirtæki og á samfélagið í heild. Við erum þó takmörkuð af því umhverfi er fylgir skráðum félögum og þeirri formfestu í upplýsingagjöf er þar ríkir.

Við munum gæta þess að upplýsingagjöf okkar sé nauðsynleg og viðeigandi. Við erum meðvituð um það að upplýsingaleki, óviðeigandi og ónákvæmar upplýsingar og kæruleysi í upplýsingagjöf getur skaðað orðspor fyrirtækisins og valdið því og haghöfum tjóni.

 1. Samskipti við viðskiptavini

  Við munum koma fram af heiðarleika. Við munum ekki veita rangar eða villandi upplýsingar. Við munum sýna kurteisi og þjónustulund. Við munum hlusta og taka mark á viðmælendum okkar. Við munum sýna virðingu.

  Hlutverk starfsmanna: Að koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur.

 2. Samskipti við markaðinn

Skráð fyrirtæki, líkt og Skeljungur, skulu veita markaðinum upplýsingar um rekstur sinn og fjármál. Við, sem vinnum slíkar upplýsingar, heitum því að þær verði réttar, nákvæmar, stöðugar og samræmdar og að þær verði á engan hátt villandi.

Við erum meðvituð um það að öðrum en forstjóra félagsins, fjárfestingatengli og regluverði er óheimilt að hafa samskipti við markaðinn, þ.m.t. fjölmiðla. Við heitum því að virða þá ríku trúnaðarskyldu er á okkur hvílir. Okkur er einnig ljóst að ónákvæmar upplýsingar og tafir á upplýsingagjöf geta skaðað orðspor fyrirtækisins og haft áhrif á hlutabréfaverð þess og valdið fyrirtækinu tjóni. Við höfum sett okkur upplýsingastefnu sem skal vera aðgengileg á heimasíðu fyrirtækisins.

 

Hlutverk starfsmanna: Að kynna sér upplýsingastefnu fyrirtækisins og fara eftir henni.

Samþykkt af stjórn Skeljungs 8. september 2016

Leaf file-2 file-1 calendar-white ismartphone-3-white calendar-5 ismartphone-3