Framkvæmdastjórn

Ólafur Þór Jóhannesson

Forstjóri

Ólafur Þór var ráðinn forstjóri Skeljungs í febrúar 2022 en áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs og aðstoðarforstjóri Skeljungs. Hann var framkvæmdastjóri fjármálasviðs og staðgengill forstjóra Basko ehf. árin 2012-2018. Þá var Ólafur framkvæmdastjóri Miðengis ehf., eignarhaldsfélags í eigu Íslandsbanka, og þar áður gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs Teymis hf. sem var skráð félag í Kauphöll Íslands. Ólafur hefur einnig gengt ráðgjafastörfum og setið stjórn nokkurra félaga. Auk þess hefur hann sinnt kennslu í Háskólanum í Reykjavík við viðskiptadeild háskólans og starfað fyrir prófnefnd löggiltra endurskoðenda. Ólafur er með Cand.oecon próf í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands og er löggiltur endurskoðandi.

Dótturfélög Skeljungs

Í tilkynningu Skeljungs 9. september 2021. kom fram að stjórn Skeljungs hafi til viðbótar við stofnun félags utan um rekstur og útleigu á birgðastöðvum í eigu félagsins ákveðið að skerpa enn frekar á áherslum í rekstri með uppskiptingu og stofnun tveggja nýrra og sjálfstæðra dótturfélaga um annars vegar starfsemi á einstaklingssviði og hins vegar starfsemi á fyrirtækjasviði. Ákvörðun stjórnar var háð samþykki hluthafa sem samþykkti uppskiptinguna á hluthafafundi 7. október 2021, sbr. tilkynning þar um þann sama dag.

Uppskiptingin er nú komin til framkvæmda og hafa þrjú sjálfstæð dótturfélög Skeljungs hf. tekið til starfa. Markmiðið er eins og áður hefur verið upplýst um að skerpa á áherslum í rekstri, en Skeljungur hf. verður móðurfélag rekstrarfélaganna og munu verkefni þess í auknum mæli snúa að stýringu eignarhluta í rekstrarfélögunum auk annarra fjárfestinga eftir atvikum.  Skeljungur hf. verður áfram skráð félag á hlutabréfamarkaði.

Dótturfélögin eru:

Orkan IS ehf
Starfsemin er einkum á sviði þjónustu til einstaklinga, svo sem rekstur þjónustustöðva Orkunnar, Extra, 10-11, Löðurs bílaþvottastöðva, apóteka Lyfsalans og Lyfjavals, Íslenska vetnisfélagsins og Gló. Félagið mun auk þess fara með eignarhald í félögunum Brauð & Co og WEDO (Heimkaup, Hópkaup, Bland).

Forstjóri Orkunnar IS ehf. er Ólafur Þór Jóhannesson

Skeljungur IS ehf.
Starfsemin er einkum sala og þjónusta við fyrirtæki, dreifing, innkaup og heildsala á eldsneyti, smurolíum, hreinsi- og efnavörum, áburði sem og öðrum vörum og þjónustuþáttum til fyrirtækja og bænda. Þjónusta og sala til stórnotenda, til útgerða, í flug og verktöku verður einnig hluti af starfseminni. Skeljungur IS er ennfremur umboðsaðili Shell á Íslandi og mun auk þess fara með eignarhald í Barki, EAK og Fjölveri.

Framkvæmdastjóri Skeljungs IS ehf. er Þórður Guðjónsson.

Þórður gegndi áður hlutverki framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Skeljungs. Þórður var áður forstöðumaður viðskiptastýringar og sölu hjá fyrirtækjaþjónustu Símans frá árinu 2014. Áður gegndi hann stöðu viðskiptastjóra lykilviðskiptavina Símans. Þórður var jafnframt knattspyrnu- og framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA um árabil. Þórður er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði, frá árinu 2010, auk þess sem hann hefur lokið námi í markþjálfun. Þá hefur Þórður verið virkur í félagsstörfum fyrir Akraneskaupstað.

Gallon ehf. 
Starfsemin er einkum í rekstri og útleigu á birgðastöðvum um land allt ásamt rekstri birgðastöðva á flugvöllum. Í því felst m.a. móttaka birgðaskipa, afgreiðsla til skipa og í olíubíla. Gallon mun fara með eignarhald í EBK og Tollvörugeymslunni.

Framkvæmdastjóri Gallon ehf. er Már Erlingsson.

Már gengdi áður hlutverki framkvæmdastjóri innkaupa og birgðahalds Skeljungs. Áður gegndi Már starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs. Már hefur starfað hjá Skeljungi frá árinu 2006. Áður en Már hóf störf hjá Skeljungi var hann sveitarstjóri á Tálknafirði. Már hefur M.Sc. gráðu í verkfræði frá DTU í Kaupmannahöfn.

Fjárfestaupplýsingar

Skeljungur samanstendur af tveimur rótgrónum rekstrarfélögum með yfir 90 ára rekstrarsögu. Skeljungur er með starfsemi á Íslandi og í Færeyjum og þjónustar yfir 60 þúsund viðskiptavini. Hlutverk Skeljungs er að þjóna orkuþörf einstaklinga og fyrirtækja á hagkvæman og öruggan máta í sátt við umhverfi sitt.